Hálft ár
Hálft ár er liðið frá bílslysinu og frá því að ég fékk mjög fast höfuðhögg. Það var ekki fyrr en í síðustu viku að mér var bent á að afleiðingar geta hlotist af heilahristing.
Hálft ár er einnig frá því að Líam Myrkvi fæddist upp á Akranesi og við kíktum á hann nýfæddan með guðdómlega löngu augnhárin sín.
Pointið með þessum skrifum er einfaldlega að vekja athygli á því hve afleiðingar höfuðhöggs geta verið hamlandi, langvarandi og í raun lítið hægt að gera við og takmörkuð fræðsla um.
Ég hefði haft mikið gagn af fræðslu og ábendingum um afleiðingar heilahristings mun fyrr í ferlinu þar sem ég náði enganvegin að kveikja á perunni sjálf.
Eins og sumir vita þá lentum við í bílslysi 4. júní í sumar. Ég rotast og fæ heilahristing.
Ég man ekki eftir neinu frá slysinu, hálftímanum fyrir slys eða ferðinni í bæinn í sjúkrabíl.
Ég man einstaka augnablik þegar við vorum á bráðamóttökunni, eins og það hvað ég var miður mín yfir því að geta ekki svarað því hvaða börn höfðu verið með mér í bílnum.
Ég man einnig einstaka augnablik frá gjörgæsludeildinni og næstu 2-3 dögum eftir slysið.
Um leið og ég gat opnað augun, sökum höfuðverkja og komist í upprétta stöðu án svima og ógleði þá útskrifast ég af sjúkrahúsinu og fer yfir á gjörgæsludeild til dóttur minnar sem ég var svo hjá næstu vikur.
Ég er búin að vera að díla við allslags vandkvæði eftir slysið og meðal annars skerðingu á hugrænni getu. Ég gerði mér grein fyrir því að þessi skerðing tengdist höfuðhögginu við slysið en ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta væru afleiðingar heilahristings.
Ég hef bara sagt mér að það eina í stöðunni er bara að halda stanslaust áfram og bati náist með þjálfun og tíma. En ég er búin að vera mjög ósátt yfir því hvað ég er búin að vera lengi að ná mér og hvers vegna ég sé ekki orðin eins og ég á að mér að vera.
Fyrst eftir slys þá átti ég erfitt með að koma setningum rétt og skiljanlega frá mér þó ég vissi upp á hár hvað ég var að hugsa og ætlaði að segja.
Undanfarið er það meira að ég beygi orð rangt í setningu eða finn ekki orð yfir það sem ég er að reyna að segja. Leiðrétti ég mig því mikið eða byrja hálfpartinn aftur á setningunni með öðru orðalagi. Ef mikið liggur við eða ég kvíðin eða stressuð þá buna ég einhverju út úr mér en þarf síðan að stoppa og byrja upp á nýtt því það skilst ekkert samhengi í því sem ég er að segja.
Ég er núorðið orðin þó nokkuð fær við það að finna annað orðalag eða útskýra á annan hátt hvað ég er að meina en þarf alveg að hafa fyrir því að vanda mig og virka mjög oft heimsk og treg í samskiptum :)
Fyrstu mánuðina eftir slysið vildi ég helst ekki tala við aðra en nánustu sem vissu hvernig ég væri, því ég kom setningum svo rangt frá mér og gerði ráð fyrir að fólk myndi halda að ég væri þvílíkt heimsk við að heyra í mér. Það var auðvitað ekki í boði að einangra sig svo ég varð bara að halda áfram og var í raun nokkuð sama hvað ókunnugum fyndist því ég vissi skýringuna á þessum vandkvæðum.
Það tekur mig mun lengri tíma að hugsa í dag, ná að einbeita mér, allar leiðslur virðast vera lengri og seinni að virka. Ég er lengur að kalla fram upplýsingar, að tengja og svona „kveikja á perunni“, muna nöfn, orð, ýmis yfirheiti og fleira í þessum dúr.
Í síðustu viku talaði ég við konu sem hafði fengið heilahristing og ég get ekki lýst léttinum sem ég fann við að tengja við allt sem hún sagði þegar hún lýsti hinum ýmsu einkennum sem hún var að fást við eftir heilahristing.
Ég var í smá stund pirruð yfir að hafa ekki fengið upplýsingar um þetta á sjúkrahúsinu en að sama skapi var þetta samtal þvílík frelsun.
Að fá staðfestingu á því að það sem ég er búin að vera að díla við, fela og burðast með, skuli eiga sér eðlilega skýringu.
Þessi kona sem ég ræddi við um heilahristing benti mér einnig á að fara inn á ksi.is eða hugarfar.is og lesa mér til um afleiðingar heilahristings. Ég kom mér loksins í það í gærkvöldi og það var alveg leiðinlegt að sjá hvað ég gat hakað við mörg einkenni sem breyting er á frá fyrra horfi.
Ég var með þá kenningu, þar sem ég er búin að læra það mikið um heilann og hugræna virkni, að ég þyrfti bara að halda áfram til að mynda ný taugamót.
Hún sagði mér þá skemmtilegu staðreynd að stundum þarf heilinn hvíld, sem er alveg andstæðan við það sem ég hef verið að gera.
Þegar ég er hætt að sjá, með gleraugunum mínum, á kvöldin hvað ég er að lesa því textinn rennur allur saman í móðu, þá set ég önnur gleraugu yfir til að geta fókusað aftur og séð orðaskil!
Ég keypti bara svona stækkunargleraugu í Rúmfatalagernum til að geta lesið á kvöldin þar sem þetta var farið að hamla mér verulega að geta ekki lesið eftir klukkan átta á kvöldin.
Ég hef einnig alltaf getað lært og einbeitt mér að námsefninu þó börnin séu í kringum mig, núna marg les ég það sama aftur og aftur og veit ekkert hvað ég var að lesa.
Ég hef það mjög gott í dag en létti óendanlega mikið við að heyra frá öðrum sem átt hefur við svipuð einkenni og ég og fá skýringu á þessu öllu.
Annars höfum við það öll mjög gott, margt stórt og mikið búið að gerast hjá okkur undanfarna mánuði og aldrei virðist lognmolla í kringum okkur :)
Smá hint af nýjustu hugdettu minni sem ég segi frá aðeins síðar. Við munum ekki nýta jólafríið í afslöppun og hvíld heldur munum við vera á haus í vinnu...