Þriðja helgi aðventu
Við áttum dásamlega aðventuhelgi á suðurlandi og komumst yfir flest allt sem við ætluðum okkur. Plönin voru meðal annars að fara í barnaafmæli, taka á móti jólasveinunum, sundferð, leikhús og myndataka.
Fyrir svona dagskrá þarf betri föt í afmæli, útigalla og úlpur til að hitta jólasveinana úti, sundföt, betri föt í leikhús og betri föt og skó í myndatöku, plús hversdagsföt og allt annað sem fylgir okkur. Margfalda þetta sinnum barnafjölda og eitthvað af fötumm á mig.... = mun auðveldara að pakka niður fyrir okkur til USA eða Kanarí! ;) Ég reyndi sem sagt að passa upp á að vera með allt og vera við öllu búinn... en þá ákvað Selfoss að bjóða okkur upp á rigningu... hvarflaði ekki að mér að pakka regnfötum!
Jólasveinarnir voru auðvitað æðislegir, mjög hressir og kátir þegar þeir komu á Selfoss, nýkomnir úr fjallinu og alsælir að hitta alla krakkana :)
Ég fór með yngrideildina á leikritið, Leitin að jólunum. Þeim fannst það æðislegt og ég sló tvær flugur í einu höggi og stóð mig þrælvel, í tröppuleikfimi með handlóð í báðum, inn á milli atriða og var ekki í flatbotna skóm svo ég næði nú örugglega að tóna kálfana eins vel og hægt væri! :D
Leiksýningin fór semsagt fram út um allt Þjóðleikhús, ariðin sýnd á nokkrum settum á mismunandi hæðum og var því gengið upp og niður tröppur frá kjallara og upp í rjáfur á milli atriða :)
Myrra og Bæron sátu fyrst með eldri systkinum og horfðu á atriði en voru svo komin til mín og þrammaði/ sveif ég nettilega, með þau í fanginu upp og niður alla stigana! En jólasýningin skemmtileg sem hreif öll börnin með sér.
Skellti mér svo með sjö af tíu í tanntékk, yngri deildinni finnst alltaf jafn skemmtilegt að fara til tannlæknis, og það er alveg tekin umræða um hver fær að fara fyrst í stólinn ;)
Fórum einnig í tveggja ára afmæli hjá Lydíu hennar Sunnu, í sund, myndatöku og í klippingu. Modus í smáralind algjörir snillingar og fórum við í klippingu klukkan 10 á sunnudagsmorgni! Vissi ekki einu sinni að hársnyrtistofur væru með opið þá, en þetta auðveldaði mjög plönin hjá okkur að geta nýtt þennan tíma, þar sem flest allt er lokað á þessum tíma.
Þessir jólasveinar! :D
Elsta daman fékk líka að segja jólasveinunum óskalistann sinn ;)
Þriðja aðventu helgin var sem sagt vel nýtt í skemmtanir og nauðsynjar. Nú eru 12 dagar til jóla, hér áður fyrr, áður en ég byrjaði í námi, hvort sem ég var heimavinnandi eða heimavinnandi og útivinnandi, þá var ég alltaf búin að baka ellefu sortir af jólasmáköum fyrir 1. desember, seríur komnar upp og alþrifum lokið. Þá gafst tími til að gera hlutina bara smám saman og allt var klárt fyrir desember og jólasmákökur með kaffinu út allan desember.
Núna erum við að fara í smá jólabakstur, hversdags tiltekt og skreyta húsið. Öll skápa þrif og annað býður betri tíma :) tími ekki að eyða jólafríinu í það. Við elskum jólin, skreytingarnar, tilfinninguna, jólalög og allan pakkann, en þessi jól, þá ákvað ég að vera ekki einu sinni með aðventukrans, því ég ákvað að nýta aðventuhelgarnar vel og vissi að við yrðum minnst heima.
Jólin og gleðijólatilfinningin kemur alveg jafnt þó allt fari ekki eftir röð og reglu :D
Og talandi um röð og reglu, þá var ég með svo mikla fullkomnunaráráttu hér áður fyrr, að þegar krakkarnir voru sofnuð þá endurraðaði ég jólaskrautinu á jólatrénu sem krakkarnir höfðu skreytt um kvöldið. Auðvitað gekk ekki upp að hafa margar kúlur á sömu grein eða svipaðan lit eða lögun kúla, á greinum hlið við hlið!
haha já og ljóta skrautið sem var samt í svo miklu uppáhaldi hjá krökkunum, það hengdi ég aftan á tréð ;)
Núna skreytir yngri deildin tréð og við hin njótum spenningsins og gleðinnar með þeim. Ég snerti ekki tréð eftir að krakkarnir sofna og eru greinar litla trésins oft alvega að sligast þar sem þær þurfa að bera mismargar kúlur á sér og misfallegar ;) Ég passa mig á að horfa bara á ljósin ;) En vá hvað krökkunum finnst alltaf gaman að ná í gamla skrautið sitt, rifja upp og hengja á tréð.
Tréð okkar er eldgamalt gerfitré sem er þakið af jólaskrauti barnanna og orðin stíll eða tíska komast hvergi að, en þess í stað er það umvafið litlum börnum sem skoða og handfjatla gullið sitt sem hangir á trénu ☆ Eldri deildin er reyndar farin að kvarta yfir trénu, að það sé gamalt og lítið hahah, sjáum til, kannski verður stórt tré á næsta ári og jólakúlurnar eitthvað sorteraðar og stokkað aðeins upp ;)
Þreyttir yndislegir gormar eftir fyrsta daginn, afmæli, jólasveinahitting og sundferð ❤