Þetta fer allt að koma
Ef ég vissi ekki betur þá myndi ég halda að ég væri ófrísk! Ómæ, ég er orðin húkt á súkkulaðiskyri og jarðaberja Amino!
Ég bað Albert um að kaupa tvær súkkulaðiskyr dollur í Bónus í gær og ég var svo spennt að fá hann heim af því ég gat ekki beðið eftir súkkulaði skyrinu! ég á ekki til orð yfir þessari stórfurðulegu dellu í mér.
Ég reif strax upp aðra dolluna, alsæl og borðaði á meðan ég gekk frá vörunum, það þarf ekki mjólk, sykur eða annað í skyrið, þetta er bara sælgæti :)
En já, ég sagði Sóley frá því að ég hafði borðað heila skyrdollu á meðan ég gekk frá vörunum. Henni fannst bara ekkert athugavert við það að klára eina skyrdollu, en hljóðið breyttist aðeins í henni þegar ég sagði henni að þetta hefði ekki verið lítil sæt skyrdolla heldur stór 500 gramma dós! og ekki nóg með það heldur borðaði ég hina í dag og var alveg miður mín yfir að eiga ekki meira súkkulaði skyr, þegar súkkulaðiskyr fíkillinn ég fann svo þriðju dolluna aftast í ísskápnum...... Albert dásemd að kaupa þrjár þó ég hafi bara beðið um tvær, kannski keypti hann þrjár svo hann fengi kannski eitthvað...
það kom svona smá púki upp hjá mér að ég yrði nú að fela þessa nýfundnu svo enginn annar myndi borða hana hahahha :D nóg er til af skyri en bara þessi eina dolla af súkkulaði skyrinu ;) þetta er auðvitað ekki í lagi ;)
Og Aminó það er líka eitthvað hjá mér núna að ég verð að eiga til bleikt Amino! hafði aldrei smakkað þetta fyrr en ég fór til Breiðdalsvíkur, átti að vera til að halda mér vakandi á leiðinni. Fannst þetta mjög vont og allt of mikið bragðefni í einni flösku, en núna finnst mér ég verða að eiga þetta til í ísskápnum til að grípa í, eins og ég segi, það mætti halda að ég væri ófrísk miðað við þessa dellu sem er í gangi hjá mér.
Alveg að verða búin!
Heyrðu já skólinn er byrjaður, ég er með þrjú yngstu börnin heima á daginn og bara fjögur í grunnskólanum þennan veturinn. Er alveg að fara að koma mér í að koma rútínu í gang. Ég kem mér bara ekki í að finna út hverslags rútína kæmi best út fyrir okkur. Hvenær ég eigi að læra, heimanám krakkanna, á ég að elda í hádeginu og hita upp á kvöldin, elda heitan mat á kvöldin, borða þá klukkan sex eða sjö.......
Svo er Albert að vinna í sláturstíðinni og þá finnst mér bara engan vegin taka því að elda fyrir bara fjóra, finnst ekki einu sinni taka því að elda þegar við erum fimm, þegar hann er líka heima. Nema ég gæti eldað eðlilega í hádeginu og hitað upp á kvöldin, en það gengur ekki alveg upp með allan mat, svo já ég er bara ekki alveg búin að finna út úr þessu.
En áður en allt fer á fullt þá skruppum við Sóley á date á þriðjudagskvöldið :) í Staðarskála hahaha ;) hefðum alveg verið til í að fara á flottan veitingastað en þetta varð að duga... klukkkan tíu um kvöld... út í sveit... ;) Og þar sem ég var komin upp á lagið með þetta þá fór ég með yngstu deildina á Hlöðuna og fengum okkur súpu í hádeginu daginn eftir.
En já gærdagurinn byrjaði samt á því að ég svaf svo illilega yfir mig að ég vaknaði við það að skólabílstjórinn bankaði á dyrnar og spurði hvort börnin færu ekki í skólann í dag! Ég sagðist bara ætla að skutla þeim og svo fór allt á fullt til að koma öllum í skólann á réttum tíma. Og auðvitað þurfti ég að vekja yngstu þrjú og taka þau með í bílinn líka til að skutla hinum, ég er alveg með þetta sko! Nei nei svona getur alveg komið fyrir, ég held að þetta hafi bara tvisvar gerst á þessum 17 árum sem ég hef verið með börn í grunnskóla. Hef alveg sofið aðeins yfir mig en alltaf náð því að krakkarnir komist með skólabílnum ;)
En dagurinn í dag er bara búinn að ganga mjög vel ;) Það var reyndar allt hélað í morgun en veðrið í allan dag er búið að vera æðislegt og litlu gormarnir úti að leika sér. Ég spurði Eldon í morgun hvað ég mætti bjóða honum, ég var þá auðvitða að meina í morgunmat, en drengurinn var ekki lengi að svara og sagðist vilja pylsu með öllu! Hann er æði. En nei hann fékk samt ekki pylsu í morgunmat, mátti reyna :)
Jasmín kom heim úr tónlistarskólanum með fiðlu sem hún ætlar að læra á í vetur, þvílík spenna og hamingja yfir þessu dásemdar hljóðfæri :) Hún reyndi að kenna Eldon hvernig hún lærði hvað strengirnir hétu, Elgur, api, dreki, grís fyrir E, A, D, G. Eldon var súper fljótur að ná þessu, Elgur, api, dreki, svín ;) ;)
Frosti Sólon á leið í heimsókn til bóndans á næsta bæ :D
En já Albert er farinn upp á heiði í göngur, ég kem mest litlu í verk í að gera allt klárt fyrir réttirnar sem eru um helgina, ég vona bara að gestirnir sem verða hjá okkur lesi þessa færslu áður en þau koma svo þau viti við hverju er að búast ;) :D
Yngri deildina hlakkar svo til helgarinnar, þeim finnst þetta allt svo skemmtilegt þetta réttar stúss, ég held að elstu dömurnar séu spenntastar að fá eggjasamloku, sem er alveg fastur liður þessa helgi. Við erum alltaf með fullt af nesti í skottinu á bílnum í réttunum og fjölskylda og vinir koma þar saman í kaffi í réttarhléinu.
Eitt árið sleppti ég samlokum og var bara með fullt af kökum í staðinn, það mun ekki koma fyrir aftur! Eggjasamlokur hafa bara alltaf verið á vísum stað, fastur liður sem hægt er að stóla á, bara eins og jól og páskar! Auðvitað sleppir maður ekki bara jólunum úr dagatalinu eitt árið ;) Eggjasamlokurnar munu mæta á laugardaginn í réttir og verða rómaðar og hylltar þar og þetta mun aldrei gerast aftur ;)
Og svo næsti viðburður í september verður tvítugsafmæli Perlu Ruthar! dóttir mín verður tuttugu ára núna 21. , það er svolítið rosalegt!
Já og ekki nóg með það heldur á Helga systir mín á von á sínu fyrsta barni núna í september! Þetta verður aldeilis stórtíðinda mánuður :D
Ooog síðast en ekki síst, þá veit ég ekki hvernig ég færi að án græna orku tesins míns! ég hef verið með Herbalife frá því 2003 og þetta er eitt lang besta orkubúst sem ég hef prófað.
Núna er ég til dæmis búin að vera að tékka hvort ég fái orku kikk úr kaffi en neibb, það hefur ekkert að segja. Alberti finnst ég mjög fyndin með kaffidrykkjuna mína, hva.., ég hef engan tíma til að vera að drekka þetta eitthvað í lengri tíma, svo ég set aðeins mjólk út í til að kæla það og svo skelli ég því bara í mig, ekkert að dunda við þetta ;) og Aminó, þó ég elski það þá kemst það ekki heldur með tærnar þar sem teið mitt hefur hælana :) love it