Námsönnin búin og ég komin í sumarfrí ☼
Síðasta námsverkefni vetrarins var skilað rétt upp úr hádegi, eftir það fór allt á fullt við að sinna verkefnum heimilisins sem höfðu setið á hakanum vegna prófa og verkefnaskila á endaspretti annarinnar.
Ég bókstaflega óð úr einu verkefninu í annað og eftir daginn hafði mér tekist að tæma þvottakörfuna, ganga frá öllum þvotti, sortera og taka til í fataskápum barnanna, greinilegt að þau hafa stækkað eitthvað í vetur, og pakka útigöllum og öðrum vetrarfötum til hliðar.
Ég hafði ekki haft tíma fyrr til að fylla allt af mat fyrir sauðburð svo til að vinna allt aðeins hraðar þá skellti ég hjónabandssælu uppskriftinni í ofnskúffuna, smellti í tvær af þeim, bakaði tvöfalda snúðauppskrift, brauðbollur og gerði tvöfalda eplaköku uppskrift og skellti líka í ofnskúffuna, það hef ég reyndar ekki gert áður og fannst ekki koma nógu vel út, kakan var of þykk og ekki eins girnileg eins og þegar hún er í kringlóttum formum, svo ég ætla bara að halda mig við fallegu kringlóttu eplakökurnar, það virkar líka svo vel þar sem börnin mín skiptast á milli þess að vilja eplaköku án epla og með eplum svo ég geri alltaf bæði eplaköku með og án epla ;)
Smellti svo í túnfisksalat og steikti endalaust magn af kótilettum í raspi svo það væri eitthvað meira matarkyns til að borða í fjárhúsunum annað en kökur. Og þar sem ég vann allt svo bilað hratt þá var ég búin að búta allt niður í box og senda út í fjárhús áður en það svo mikið sem hvarflaði að mér að mynda öll herlegheitin, en hins vegar tók ég myndir þegar ég fór út að baka sandkökur með Myrru og Bæron ❤